áhugavert par

Ég vakna við það að sólarljósið skín í gegnum himinblálitaða gluggafólíuna, litur vikunnar. Vikulega skipti ég um fólíu og þannig öðlast þær sinn litinn hver, og líf mitt fjölbreytni. Ég hita mér myntute og drekk bókstaflega í mig plöntuna. Síðast þegar ég las Vefarann drakk ég alltaf þetta te. Þessi hugarheimur Laxness flæðir því í gegnum æðar mínar og yljar mér, ég loka augunum, finn tebragðið, og verð að Steini Elliða, tilveru hans, hugsun, draumum, umhverfi...þar til bollinn tæmist. Ég vind mér í fötin, tékka á hvort allt sé ekki á sínum stað í töskunni, myndavél, diktari, litaspjöldin, skrifbókin mín, síminn, veskið. Ég rölti gegnum bæinn og skynja fólk á þönum, eyðandi orku, fjármunum og tíma í leit að einhverju til að fylla tómið, koma hingað, fara þangað, bregðast við áreitum. Stelpa heldur á ís með dökkgullinni karamelluídýfu. Tengi litinn við skrif Lesbókar Morgunblaðsins eina vikuna. Þar voru rifjuð upp skrif Matthíasar V. Sæmundssonar um mátt bókmenntatexta. Hann hélt því fram að bækur væru besta vopnið til að hrífa manninn úr forritinu og inn í heim skapandi formleysu. Holdgervingur bókmenntanna: Morfeus matrixmaður. En ég ætlaði ekki að segja frá sjálfum mér. Um daginn var ég staddur á kaffihúsi þegar ég komst ekki hjá því að heyra tal tveggja ungmenna, stelpu og stráks. Strákurinn, sem ég leyfi mér að kalla Ask, virtist nokkuð þjakaður og í fyrstu virtist sem stúlkan, ég kalla hana Emblu, væri að hughreysta hann. Samtal þeirra snerti mig djúpt. Hugur minn fór á flug og reyndi eftir mætti að grípa eða sópa upp þau orð sem þar féllu svo ekki yrðu þau gleymskunni að bráð. Ég skipti samræðunum í sex hluta og breytti hverjum þeirra í eina hug-mynd. Þessar myndir nota ég síðan til að geyma og kalla síðan fram samræðurnar. Myndunum held ég fyrir sjálfan mig en hér kemur fyrsti hluti: A: Ást. Ég er bara þreyttur. Þreyttur á veruleikanum eins og hann er. Þreyttur á að reyna að þola hann og berjast gegn því að hann nái mér á sitt vald E: Hvað ertu að tala um? Hver er að reyna að stjórna þér? A: Allt. Allt umhverfi mitt. Allt áreitið og þumbaháttur hóphugsunar. Eðli hennar er að skilja mestan hluta gildismætrar visku við landamæri sín. Kerfið. Skólinn. Tilætlunarsemin og samkeppnin. Pósítivisminn. Þróunin. Hraðinn. Skatturinn sem öllum hugsandi verum er lagður á herðar, meðvitundin um ómeðvitund lífsins, er einfaldlega óbærilegur. E:Hvað ertu að meina? A: Æi. Bara hina eilífu örlaga-frelsis-pælingaflækju. Nenni ekki að fara í það. E: Má ég koma með punkt? A: Auðvitað. E: Hættu þessu volæði. Það er ekkert að. Leyfðu mér að upplýsa þig um hina svokölluðu tilvistarflækju þína og hve erfið hún er. Ekki. Þú hefur allt til brunns að bera. Þú ert klár. Þú ert með ríka samkennd og góður við fólk. Þú ert heilbrigður. Þú hefur sæmileg fjárráð. Þér standa allir möguleikar opnir. Þú... A: Möguleikar. Hvaða möguleikar? Nefndu mér þá. E: Já. Þú ert að klára menntaskólann. Þó að einkunnirnar þínar séu ekkert til að hrópa húrra fyrir veit ég um ólguna sem undir kraumar. Rökhugsunina. Sköpunargáfuna og þitt ótrúlega minni. Þú getur orðið allt sem þú vilt. A: Hvað ef ég vill ekki verða neitt nema ég sjálfur. Eyja. Óháður. Ég er tímaskekkja. Staðarskekkja. Þegar ömurð mín er sem mest og ég vill gefast upp þá þrái ég að það yrði slökkt á mér, hugsun mín strokuð út og ný, auðmjúk, félagssamþykkjandi sett inn í mig í staðinn. Þá stykki ég á fætur dag hvern handviss um tilgang minn. Hversu mikil viska er ekki fólgin í þeirri heimsku að lifa eins og svínið sem elskar drullluna og efast aldrei um ágæti hennar. Þversögnin er einföld. Við lítum niðrá svínið. En við lifum við fyrir vellíðunartilfinninguna, tilbiðjum hana. Næstum öll ákvarðanataka miðar að því að auka þá vellíðun sem markaðurinn hefur upp á að bjóða. Við þráum að verða svínið en um leið teljjum við lifnaðarhátt þess viðurstyggilegan og niðurlægjandi. Þetta bil óskar og uppfyllingar verður aldrei hægt að brúa. E: Og hvað? Þó að þessi abstrakt tilvistarójafna sé á einhvern hátt hluti af því sem umlykur okkur þá getur ekki verið meiri tilgangur í því að gera ekki neitt heldur en að gera eitthvað......

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband