23.11.2006 | 03:32
áhugavert par, þriðji hluti
Askur:Enn á ég eftir að fara og skilja margar leiðir. Vanlíðan mín er fólgin í því að sjá ekki fram á að skilja alla þessa stíga og vera því endalaust í vafa um þá hugmyndafræði sem er að gerjast inn í mér. En ég verð að þora að taka skrefið og byggja leið mína á líkum en ekki fullvissu. Líkum og tilfinningu. Ég hef engan fastan punkt í veruleikanum nema minn eigin abstrakt punkt, abstrakt miðju í veruleikanum þar sem ég er bæði spegill og svampur. Spegillinn er endurvarp, stjórnlaus enn sem komið er. Svampurinn er það sem ég tel mig stjórna, því sem ég tel mig taka inn og gera að því sem ég vill vera . Spegillinn er gríma. Svampurinn er ég.
Embla: Ertu að meina að þú standir núna frammi fyrir þessu vali, halda áfram að veslast upp leitandi að fullvissu sem aldrei kemur eða láta til skarar skríða og treysta á það sem þú telur að sé þitt eigið, þinn svamp og þann fjársjóð sem inn í honum liggur.
Askur: Já. Það held ég að minnsta kosti. Nú ætla ég að renna yfir fyrir þig í þann veruleika sem okkur finnst venjulegur og sjálfsagður. Hvernig eru börnin? Áköf. Opin. Glöð. Svampar á eigin líkama og allan veruleikann sem umlykur hann. Hvernig eru unglingar? Ákafir. Jú. Opnir. Varla. Glaðir. Pæling. Kannski er þetta að breytast. Námskráin er aðeins að lifna við, sérstaklega með tilkomu leikrænnar tjáningar, dans, myndlistar og lífsleikninnar. En í dag þekkja jafnaldrar okkar ekki sjálf sig. Faucoult hafði rétt fyrir sér þegar hann spáði fyrir um endalok sjálfsverunnar. Grunnskólinn kennir enn enga sálfræði. Þau vita ekki af hverju þau vilja það sem þau vilja. Enginn hefur hjálpað þeim að staðsetja sig í veruleikanum. Enginn útgangspunktur lengur nema ímynduð stund með ímynduðum hlutum sem náðst hafa í gegnum peningaleit. Þau vita ekkert um töfra bókmennta og tilgang þeirra sem ofur-, djúp- eða and-veruleika. Þau hafa ekki öðlast mannleika. Þeim hefur aldrei verið boðið möguleikinn að efast um menntun sína og uppeldi.
Embla: Askur, vertu varkár. Athugaðu hvað þú ert að segja. Fólk byrjar stundum of fljótt að reyna að breyta heiminum, löngu áður en það hefur kafað ofan í sjálft sig og upplifað lífið. Of mikið af fólki sem úðar orðum sínum um aðra og yfir aðra án þess að gaumgæfa bilið milli hugsunarinnar og birtingarinnar. Oft er engin innistæða fyrir orðunum. Þau geta fallið á hvaða viðkvæmt blóm og eyðilagt líf þess.
Askur: Ég veit um eina hugsanlega leið.
Embla: Nú?
Askur: Aftur í gegnum skólann. Alltaf í gegnum skólann. Þar eyðum við mestum hluta ævi okkar. Þar er tíminn dýrmætastur fyrst svo komið er að foreldrum okkar eru þau örlög sett að vilja ekki einu sinni losna undan sysifosarsteininum, ofþjökuð af vana Becketts. Foreldrar okkar eru hætt að efast um kvöðina sem þeim er sett. Fólk heldur að steinninn sé þjáningin en í raun er hún sú að þora ekki að takast á við óvissuna og frelsið. Fólk er ekki hlekkjað við steininn. Þess þarf ekki. Hlekkirnir eru vaninn og hugleysið. Foreldrar okkar efa ekki að að klukkan sjö sé eðlilegt að setja sjálf á sig hálskeðjuna og drattast síðan með hana til klukkan sex. Engum dettur í hug að ímynda sér aðra möguleika. Fyrir hvern er það að vinna? Vinnandi að draumum annarra. Hafandi traðkað á sínum eigin, kæft þá. Þessu er ekki hægt að breyta. Það sem þó hægt er að gera er að frelsa næstu kynslóð án þess þó að óreiðan nái yfirhöndinni. Það hlýtur að vera til það ástand að hver maður sé meðvitaður bæði um óendaleika heimsins og smæð sína í honum OG að hann geti glaður vaknað hvern morgun fullviss um að kraftar hans sameinist eigin löngunum sem og löngunum heildarinnar.
Embla: Varaðu þig nú. Þú ert að alhæfa um heila kynslóð harðduglegs fólks, fólks sem hefur lagt sálina í gildi sem það trúði á. Hvernig geturðu verið svona kaldur? Þröngsýnn jafnvel. Skil þig ekki.
En hver er leiðin sem þú nefndir?
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.