áhugavert par. annar hluti

Askur: Nákvæmlega þarna greinir okkur á og nákvæmlega þarna liggur rót óhamingju minnar. Ég sé meiri tilgang í því að sitja og hugsa og veslast upp félagslega heldur en að stíga á sviðið, setja upp grímuna og dansa eins og þræll eftir tónlist samfélagsins. Reyndu að setja þig í mín spor. Ég skynja heiminn af meiri dýpt heldur en líklega nokkur persóna í landinu mínu. Landinu sem ég elska. Landinu sem ég er hluti af. Ég þekki möguleikana sem liggja í því tengja náttúruna við hugsun sína og minni. Ég skynja öll möguleg form eins og venjulegt fólk skynjar stafi og tengi þau við hugsun mína. Ég breyti bókum yfir í myndaalbúm tákna og tenginga. Í þær öskömmu stundir sem sandfok aðlifaaf-áreitis og tilbúins tilgangslauss tilgangs sker ekki augu mín þá sé ég handan við menntakerfiseyðimörkina tæra vin þessa möguleika. Líf mitt eru rammar og táknmál.

Embla: Menntakerfiseyðimörkina? Ég skil þig ekki. Hvað gæti mögulega verið að menntakerfinu. Það er ekkert hægt að klúðra því nema kannski fjárhags- og stjórnunarlega. Fyrst koma stafirnir. Síðan reikningur. Sagan. Líffræðin. Seinna tungumálin, eðlis- og efnafræði, jarðfræði og allt þetta sem hver maður þarf að fara í gegnum til að þroskast. Regluleg skyndipróf. Verkefni. Þetta er sambræddur hluti þess að alast upp, læra aga, vera með og umgangast jafnaldra sína, taka próf, komast lengra, keppa við sjálfan sig um betri einkunnir. Að auki hefur komið inn lífsleiknin og síðan hefur vægi listgreina aukist til muna. Hvað viltu meir?

A: Ég vil ekki meir. Ég vil aðra nálgun. Ég finn hve skólinn, þrátt fyrir oft góðan vilja, lætur okkur fjarlægjast rætur okkar. Það eru til tveir heimar. Heimur kvikmynda, bókmennta, listarinnar og sálarlífsins. Og heimur kerfisins, heimur að mestu pósitíviskur í eðli sínu, vísindalegur, framþróunarlegur, lógískur, tilfinningalaus, blindur úrsmiður. Til þess að sálin öðlist jafnvægi verðum við að leyfa manneskjunni að lifa sem mest í hinum fyrri heimi sköpunargáfunnar, ímyndunaraflsins, áður en seinni heimurinn, kerfið, gleypir hana og neyðir til að þjóna hagsmunum sínum.

E: Ég veit að þú ert á heimspekilegu nótunum. Það er einn eiginleika þinna sem togar mig að þér. En það er ekki eins og þú sért sá fyrsti sem hvetur til staldurs og hugleiðingar um lífið. Öll trúarbrögð miða að þessu. Hvað ert þú með í hausnum sem er svona merkilegt? Hvaða stíg gætir þú hugsanlega fetað sem enn hefur ekki verið fótum troðinn.

A: Ég held að hugsanir mínar miði frekar að því að fljúga yfir þá stíga sem farnir hafa verið , skilja þá, koma til baka inn í óskilgreinda miðju mína og byrja að sýna fram á mýkt í lífsmáta sem áður hefur þótt óhugsandi. Og jafnvel verið óhugsandi. Óhugsandi hugsun.

E: Og ertu kominn aftur úr þessari ferð eða á hún eftir að vera farin?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Það gleður mig að sjá að kallinn sé byrjaður að skrá hugsanir sínar aftur, vona að öxlin sé að koma til, þá verður gaman á HM í jan !

kv, G. Ben

G. Ben (IP-tala skráð) 20.11.2006 kl. 11:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband